Nú þegar janúar er liðinn, þá er kannski ekki seinna vænna að fara aðeins yfir árið 2024
Árið var viðburðaríkt líkt og fyrri ár. Fjöldamörg verkefni lentu á borði okkar og margar hendur hjálpuðust að við að leysa hvert þeirra. Kjarnastarf okkar, eins og áður, felst í að taka við dýrum í neyð, hýsa þau á fósturheimilum til skamms tíma, og finna þeim svo framtíðarheimili.
Þrátt fyrir mikinn fjölda dýra sem voru á fósturheimilum í upphafi árs, var reynt af fremsta megni að hjálpa öllum þeim sem leituðu til okkar til að finna heimili fyrir dýrin sín eða fá aðrar úrlausnir á sínum málum.
Hér munum við fara yfir ýmis verkefni og viðburði sem við sinntum á árinu samhliða okkar aðalstarfi. Þá viljum við þakka ykkur öllum fyrir að styðja okkur með fallegum orðum, verkum og gjöfum.
Árið 2024 hófst með áframhaldandi vinnu í stóra naggrísaverkefninu okkar, sem prýðir forsíðu dagatals Dýrahjálpar fyrir árið 2025. Í dag eru næstum allir naggrísirnir komnir á frábær heimili, og vegnar þeim vel.
Við vorum í hópi dýravelferðarfélaga sem var boðið í kaffiboð á Bessastöðum sem þakklætisvott fyrir framlag okkar til aðstoðar við dýr og eigendur þeirra vegna eldgossins í Grindavík. Var það mikill heiður og við erum stolt að hafa verið hluti af þessum flotta hóp dýravelferðarfélaga.
Ásta Katrín teiknari hannaði kanínupoka, fjórðu útgáfuna af taupokunum okkar. Útkoman var fallega fjólublár taupoki með afar krúttlegum kanínunum. Það var kominn tími til að kanínur fengju sinn sess á taupokunum enda hafa þær frá upphafi verið stór hluti af starfi okkar.
Í byrjun febrúar héldum við Tattoo Flash Sale viðburð í samvinnu með Artifex Ink. Yfir 300.000 krónur söfnuðust þegar fjöldi fólks fékk sér sitt fyrsta, annað, þriðja og tíunda tattú. Að sjálfsögðu tengjast þau öll dýrum! Þetta var mjög skemmtilegur viðburður sem verður mögulega endurtekin aftur síðar.
Í febrúar og mars vorum við með kynningar og söluborð á smá- og stórhundakynningum í nýju húsnæði Garðheima.
Í mars og apríl fluttum við loksins í nýtt húsnæði þar sem við gátum sameinað lager og skrifstofuaðstöðu. Nokkrir basarar voru haldnir fyrir flutningana til þess að bæði minnka umfang alls þess sem þurfti að flytja á milli og safna fé fyrir fósturdýrin okkar. Það gekk vonum framar, og margir kíktu við hjá okkur. Fyrri húsnæðin voru þrifin hátt og lágt af hörkuduglegum sjálfboðaliðum og starfsmönnum, og skotgengu flutningarnir. Við erum afar ánægð með nýju aðstöðuna okkar og nágranna, en Kattholt er svo til í næsta húsi.
Í lok vors og um sumarið var afar mikið að gera í tengslum við dýr sem þurftu á aðstoð okkar að halda enda álagstími í okkar starfi: Mörg dýr komu inn og sjálfboðaliðar fóru í verðskulduð sumarfrí. Strax um haustið var svo farið á fullt í undirbúning árlegrar jólafjáröflunar. Við tókum m.a. þátt í sveitamarkaði í Álafosskvos með félaginu Villikanínum. Tilgangurinn var að afla fjár fyrir kanínuverkefnið.
Við vorum með, eins og fyrri ár, afar skemmtilegan myndatökudag hjá Þetta Stúdíó, þar sem mörg fósturdýr sem höfðu fengið heimili á árinu, komu til að sitja fyrir á Dagatali Dýrahjálpar 2025. Þetta er án efa einn skemmtilegasti dagur ársins þar sem við hittum aftur dýrin með eigendum sínum og fáum að sjá hvernig þau hafa fengið að blómstra á nýju heimilunum sínum.
Eftir nokkurra ára pásu gáfum við aftur út jólakort og merkimiða með aðstoð Korterí og Litlaprents. Úr því urðu alveg gullfalleg og mögulega krúttlegustu kortin norðan Alpafjalla og það er ekki hlutlaust mat!
Nóvember og desember einkenndust af jólamörkuðum og ýmiskonar fjáröflun en næstum allt fjármagn fyrir komandi ár safnast á þeim tíma. Í aðdraganda kosninga í nóvember voru flest allar kosningaskrifstofur heimsóttar. Þar var starfsemi Dýrahjálpar kynnt og farið yfir mikilvægi hennar.
Rétt fyrir jól voru óvenju mörg dýr sem nauðsynlega þurftu að komast á fósturheimili, og voru því nokkuð mörg þeirra með yndislegar viðbætur á jólunum. Við erum þeim afar þakklát að hafa geta tekið við dýrum á þessum tíma.
Við viljum sérstaklega þakka þeim sjálfboðaliðum sem gáfu vinnu sína og hjálpuðu dýrunum með ýmsum hætti. Án þeirra væri ekki hægt að halda úti starfsemi félagsins.
Takk fyrir árið 2024, og vonum að árið 2025 verði gott fyrir dýrin og velferð þeirra.
Tölur fyrir árið 2024:
- Að meðaltali voru 75 dýr á fósturheimilum í hverjum mánuði.
- Að meðaltali komu inn 5 ný dýr á fósturheimili í hverjum mánuði.
- Að meðaltali fundum við heimili fyrir 9 dýr í hverjum mánuði.
- Í byrjun árs voru 117 dýr á fósturheimilum og í lok desember voru 68 dýr á fósturheimilum.
- Á heimasíðu Dýrahjálpar voru í heild 320 dýr auglýst á árinu.
- 246 dýr sem voru auglýst á síðunni hafa fengið ný heimili á árinu.