Ef þú lendir í þeim aðstæðum að vera búinn að týna gæludýri mælum við með því að þú látir hendur standa fram úr ermum og hafir samband við þá aðila sem geta komið til aðstoðar. Hér að neðan eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga við leitina.
1. Ef um hund eða kött er að ræða þá skalt þú hafa samband við þá aðila sem dýrafangarar fara með dýrin til. Það eru Leirur á höfuðborgarsvæðinu fyrir hunda (hundahotel.is) og K-9 í Reykjanesbæ. Kettir sem finnast á höfuðborgarsvæðinu fara í Kattholt (kattholt.is) og einnig er gott að auglýsa á heimasíðunni hjá þeim ef um ketti er að ræða.
2.Hafðu samband við lögreglu og dýralækna í þínu hverfi/svæði og láttu skrá hjá þeim að þú sért að leita að týndu gæludýri ásamt því að gefa góða lýsingu á dýrinu.
3. Auglýstu eftir gæludýrinu á sem flestum heimasíðum (ekki gleyma þó að láta taka auglýsinguna út þegar dýrið finnst). Til dæmis er hægt að auglýsa eftir dýrum á mbl.is og visir.is og jafnvel í prentuð blöð. Ýmsir spjallþræðir eru einnig góð leið til að auglýsa eftir týndu gæludýri, til dæmis má þar nefna barnaland.is, dyraland.is, tritla.is, hundaspjall.is, hvuttar.net ofl.
4. Ef þú átt kött sem gengur laus en hefur ekki skilað sér heim eða ert með innikött sem hefur sloppið út þá er mjög sniðugt að prenta út litla auglýsingasnepla með mynd og lýsingu af dýrinu, hvaðan það týndist og hvenær. Þessa auglýsingasnepla er sniðugt að bera út í hverfinu þar sem kötturinn týndist og benda fólki meðal annars á að kíkja í bílskúra og geymslur til að kanna hvort kötturinn hafi náð að koma sér inn en kemst ekki út af sjálfsdáðum.